Innlent

Enn fjöldi mótmælenda á Austurvelli

sev skrifar
MYND/Haraldur Ási Lárusson

Enn eru nokkur hundruð mótmælendur á Austurvelli. Fólkið ber trommur og reynir að halda lífi í bálköstum sem lögregla slekkur jafnharðan í.

Óeirðalögregla slökkti um tvöleitið í bálkesti sem logað hafði í frá því fyrr í kvöld við inngang alþingishússins. Mótmælendur hlóðu þá nýjan bálköst við styttuna af Jóni Sigurðssyni og kveiktu í. Þegar klukkan var að nálgast þrjú slökkti lögregla í honum líka.

Nokkrir trébekkir, ruslatunnur og annað lauslegt af Austurvelli hefur orðið eldinum að bráð í kvöld.

Svo virðist sem piparúða hafi verið beitt þegar lögregla réðst til atlögu við seinni bálköstinn, því nokkrir mótmælenda sáust skola úr augum sínum, eða leituðu sér aðhlynningar hjá sjúkrabíl sem staddur var við Dómkirkjuna. Þar skammt hjá var slökkviliðsbíll einnig til reiðu.

Þetta virtist ekki draga úr mannskapnum, því áfram var haldið að berja trumbur og safna í nýjan bálköst.

Einn mótmælenda sem Vísir ræddi við sagðist hrærður yfir þeim stuðningi sem þeir hefðu fengið. Veitingastaðir við Austurvöll hefðu til að mynda hleypt mótmælendum í gegnum staðina með þungan eldivið á bálið.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×