Enski boltinn

Gerrard tæplega með gegn Fulham - Torres líklega klár í slaginn

Ómar Þorgeirsson skrifar
Steven Gerrard.
Steven Gerrard. Nordic photos/AFP

Knattspyrnustjórinn Rafa Benitez hjá Liverpool viðurkennir að fyrirliðinn Steven Gerrard sé tæpur fyrir leikinn gegn Fulham á morgun en hann bindur meiri vonir við að Fernando Torres geti spilað.

Gerrard missti sem kunnugt er af sigurleiknum gegn Manchester United en Torres spilaði þann leik og skoraði þrátt fyrir að vera meiddur.

„Gerrard er enn að vinna með sjúkraþjálfara þannig að það er erfitt að segja með hann. Torres er aftur á móti betri og getur vonandi verið með. Við verðum bara að bíða og sjá til hvað gerist," er haft eftir Benitez.

Liverpool mætir Lyon í gríðarlega mikilvægum leik í Meistaradeildinni í næstu viku og því ekki ólíklegt að Benitez reyni að spara Gerrard um helgina til þess að hann verði pottþétt klár í þann leik enda má Liverpool ekki við öðru en sigri í þeim leik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×