Enski boltinn

Real Madrid hefur ekki boðið í Antonio Valencia

Ómar Þorgeirsson skrifar
Antonio Valencia.
Antonio Valencia. Nordic photos/Getty images

Umboðsmaður Antonio Valencia hjá Wigan hefur staðfest að Real Madrid sé ekki eitt þeirra tveggja félaga sem greint var frá um síðustu helgi að hefðu boðið 16 milljónir punda í kantmanninn knáa.

„Það hefur ekkert kauptilboð borist frá Real Madrid í Valencia. Síðasta kauptilboð frá þeim kom í janúar og eftir að Florentino Perez var skipaður forseti félagsins höfum við ekkert heyrt frá þeim og ég veit ekki hvort að við gerum það," segir Diego Herrera umboðsmaður Valencia.

Herrera staðfesti hins vegar að Valencia vildi fara frá Wigan.

„Núna er rétti tíminn fyrir hann að taka næsta skref, eftir að Steve Bruce fór frá félaginu. Hann þarf nú að fá nýja áskorun," segir Herrera.

Sögusagnirnar segja að Sir Alex Ferguson vilji fá hinn 23 ára landsliðsmann Ekvador til liðs við Englandsmeistarana en þýska stórliðið Bayern München er einnig sagt vera að fylgjast náið með gangi mála hjá Valencia.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×