Enski boltinn

Benitez vonsvikinn: Við verðum að vinna svona leiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier Mascherano svekktur með gang mála í dag.
Javier Mascherano svekktur með gang mála í dag. Mynd/AFP

Rafael Benitez, stjóri Liverpool, leyndi ekki vonbrigðum sínum eftir marklaust jafntefli á móti Blackburn í ensku úrvalsdeildinni í dag. Liverpool missti fyrir vikið Aston Villa upp fyrir sig og er því komið niður í 6. sætið.

„Þetta var mjög erfiður leikur fyrir okkur. Við fengum nokkur góð færi sem við áttum að nýta. Við spiluðum ekki vel í fyrri hálfleik en þetta var miklu betra eftir hálfleik. Við vorum miklu meira með boltann en þegar við unnum Everton um síðustu helgi," sagði Rafael Benitez.

„Við verðum að vinna svona leiki. Við erum að bæta okkar leik en við verðum að gera betur. Ég er vonsvikinn með að vinna ekki leikinn en við héldum þó hreinu annan leikinn í röð," sagði Benitez sem var að sjálfsögðu spurður um Alberto Aquilani sem sat allan tímann á bekknum.

„Hann er orðinn heill og búinn að ná sér af ökklameiðslunum. Mér fannst þó ekki rétt að setja hann inn í þessar aðstæður á móti líkamlega sterku og hörðu liði," sagði Benitez og bætti við: „Það er miklu betra fyrir hann að fá tækifærið á heimavelli fyrir framan sína stuðningsmenn," sagði Benitez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×