Fótbolti

Bordeaux franskur meistari í fyrsta sinn í áratug

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bordeaux varð franskur meistari í kvöld.
Bordeaux varð franskur meistari í kvöld. Mynd/AFP

Girondins Bordeaux tryggði sér í kvöld franska meistaratitilinn í knattspyrnu eftir 1-0 sigur á Caen í lokaumferð frönsku úrvalsdeildarinnar. Bordeaux og Marseille áttu möguleika á því að vinna titilinn fyrir lokaumferðina en meistarar síðustu sjö ára í Lyon enduðu í 3. sæti níu stigum á eftir nýkrýndum meisturum Bordeaux.

Marseille vann 4-0 sigur á Rennes í sínum leik en til að Marseille-liðið yrði meistari þá varð Caen, sem var að berjast fyrir lífi sínu í deildinni, að vinna Bordeaux. Það tókst ekki, Caen fékk og Bordeaux varð meistari.

Yoan Gouffran skoraði sigurmarkið mikilvæga fyrir Bordeaux á 48. mínútu leiksins en þetta var fyrsti meistaratitill félagsins síðan 1999 eða í heilan áratug. Þjálfari liðsins er einmitt gamli franski landsliðsmaðurinn Laurent Blanc.

Veigar Páll Gunnarsson sat allan leikinn á bekknum þegar Nancy tapaði 3-2 á útivelli á móti Lille en Nancy-liðið endaði 15. sæti aðeins fimm stigum frá fallsætinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×