Enski boltinn

Sven-Goran Eriksson ekki á óskalista verðandi eiganda Portsmouth

Ómar Þorgeirsson skrifar
Sven-Goran Eriksson
Sven-Goran Eriksson Nordicphotos Gettyimages

Verðandi eigandi Portsmouth, Dr Sulaiman Al Fahim, hefur staðfest að Sven-Goran Eriksson sé ekki á lista yfir þá knattspyrnustjóra sem komi til greina hjá félaginu.

„Við erum ekki búnir að ganga frá neinu ennþá en ég get staðfest að Eriksson er ekki eitt af nöfnunum sem eru á lista hjá okkur. Annars ætlum við fyrst að ganga frá yfirtökunni áður en tekin verður endanleg ákvörðun um knattspyrnustjórastöðuna," segir Al Fahim á blaðamannafundi í Sameinuðu arabísku Furstadæmunum í gær en hann ætlar sjálfur að gegna starfi stjórnarformanns hjá félaginu.

Paul Hart gegnir knattspyrnustjórastöðunni tímabundið eins og er en ekkert hefur enn verið ákveðið með hvort hann haldi áfram hjá félaginu eða ekki. Al Fahim mun funda með honum á allra næstu dögum samkvæmt breskum fjölmiðlum.

Al Fahim staðfesti einnig að stefnan væri að byggja upp öflugt unglingastarf hjá Portmouth og áhersla yrði lögð á að fá efnilega enska leikmenn til félagsins auk þess sem hann væri þegar búinn að fá einn ungan leikmann frá Sameinuðu arabísku Furstadæmunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×