Innlent

Opið í Skaftafelli í fyrsta sinn að vetrarlagi

Upplýsingamiðstöðin í Skaftafelli er nú í fyrsta sinn opin yfir vetrarmánuði enda segir þjóðgarðsvörður íslenska náttúru einnig draga ferðamenn að um háveturinn. Heitt vatn, sem nýlega fannst á staðnum, býður upp á nýja möguleika.

Það er reyndar ekkert sérstaklega vetrarlegt í Öræfum þessa dagana enda veðrið að undanförnu líkara því sem menn eiga að venjast á öðrum árstímum, - þannig fór hitinn í Skaftafelli í tólf stig í dag. Í gegnum tíðina hefur þjónustumiðstöðin aðeins verið opin yfir sumarmánuði, og jafnan skellt í lás í septemberlok, en nú er hún í fyrsta sinn höfð opin yfir veturinn, þó ekki um helgar.

Og ferðamennirnir eru að slæðast inn, jafnvel nú í desember, að sögn Regínu Hreinsdóttur þjóðgarðsvarðar. Þannig kom talsverður fjöldi ferðamanna í Skaftafell milli jóla og nýárs í fyrra. Þetta eru nær eingöngu útlendingar, langflestir á eigin vegum á bílaleigubílum, en einnig eru dæmir um hópa, og þeim finnst Skaftafell einnig heillandi að vetri. Þeir koma til að skoða jöklana og ganga upp að Svartafossi.

Og nú sjá menn fram á ný tækifæri eftir að borun eftir heitu vatni skilaði þeim árangri að upp streyma sjö til átta sekúndulítrar af fimmtíu stiga heitu vatni. Áður var gas notað til að hita upp ferðamannasturtur og rafmagn til að kynda húsin en nú verður lögð hitaveita. Hvort þetta verði til þess að heitir pottar verði settir upp á tjaldstæðinu segir Regína að tíminn verði að leiða það í ljós.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×