Enski boltinn

Bent: Dvölin hjá Tottenham hræðileg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Darren Bent í leik með Tottenham á sínum tíma.
Darren Bent í leik með Tottenham á sínum tíma. Nordic Photos / AFP
Darren Bent hefur átt mjög góðu gengi að fagna með Sunderland á leiktíðinni en hann kom til félagsins frá Tottenham nú í sumar þar sem hann náði sér aldrei á strik.

Bent var keyptur frá Charlton árið 2007 fyrir sextán milljónir punda og skoraði alls 25 mörk í 79 leikjum með Tottenham.

„Það var hræðilegt hjá Tottenham," sagði Bent. „Fólk efaðist um mig og sjálfstraustið mitt var í molum. Það er líka erfitt að standa sig vel þegar maður fær ekki að spila."

Samband Bent við Harry Redknapp, stjóra Tottenham, var einnig sagt vera stirt, sér í lagi eftir að Bent klúðraði dauðafæri í jafnteflisleik gegn Portsmouth. Redknapp sagði eftir leik að konan sín hefði sennilega skorað af þessu færi.

„Þetta var erfitt tímabil á mínum ferli og ég efaðist mikið um sjálfan mig," sagði Bent.

En hann hefur náð sér virkilega vel á strik með Sunderland og skorað til að mynda átta mörk á leiktíðinni til þessa. Hann segir möguleika sína á því að komast með enska landsliðinu á HM í Suður-Afríku hafa stóraukist.

„Ég er mun sterkari fyrir vikið og get lítið annað gert en að halda áfram að skora mörk."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×