Enski boltinn

Jóhannes Karl: Við áttum þetta skilið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jóhannes Karl fagnar á Wembley í dag.
Jóhannes Karl fagnar á Wembley í dag. Nordic Photos/Getty Images

„Tilfinningin að vera kominn upp í ensku úrvalsdeildina er ótrúlega góð og mér fannst við eiga þetta fyllilega skilið," sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, leikmaður Burnley, sem mun spila með félaginu í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Burnley lagði Sheff. Utd, 1-0, í hreinum úrslitaleik um sætið í deildinni á Wembley í dag. Jóhannes Karl kom af bekknum á 27. mínútu og stóð sig vel.

„Það er rosalega erfitt og tala ekki um í svona stórum leikjum. Mér fannst mér samt takast vel að stimpla mig inn í leikinn. Seinni hálfleikur var líka ágætur hjá mér.

Ég varð samt svolítið stressaður eftir að ég klúðraði dauðafærinu. Fór eitthvað úr sambandi en var annars heilt yfir ánægður með frammistöðuna," sagði Jóhannes Karl sem á ár eftir af samningi sínum við Burnley sem þess utan hækkar þar sem liðið er komið upp.

„Það verður mikið fjör hjá okkur næstu daga. Við erum með hótel hérna í London og það verður teiti þar í kvöld. Svo förum við til Burnley á morgun og þar er eitthvað meira fjör skipulagt. Þetta er bara gaman," sagði afmælisstrákurinn Jóhannes Karl Guðjónsson sem á 29 ára afmæli í dag.

Nánar er rætt við Jóhannes Karl í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×