Enski boltinn

Rosicky áfram hjá Arsenal - Senderos líklega á förum

Ómar Þorgeirsson skrifar
Tomas Rosicky.
Tomas Rosicky. Nordic photos/Getty images

Tékkneski landsliðsmaðurinn Tomas Rosicky heldur í vonina um að hann geti náð að rífa sig upp eftir hnémeiðsli sem hafa plagað hann frá því í janúar árið 2008 og spilað að nýju fyrir Arsenal. Hann segir knattspyrnustjórann Arsene Wenger ekki vera búinn að gefast upp á sér.

„Ef ég næ að koma mér í svipað form og ég var í fyrir meiðslin þá á ég eftir að spila aftur fyrir Arsenal. Ég hef fulla trú á því. Wenger var vissulega svekktur þegar hann heyrði af því að ég þyrfti að fara í enn eina aðgerðina en hann hefur traust á mér og hefur aldrei gefið í skyn að hann vilji losna við mig," segir Rosicky í viðtali við dagblaðið News of the world.

Svissneski landsliðsmaðurinn Philippe Senderos gæti hins vegar verið á förum frá Arsenal en varnarmaðurinn var í láni hjá AC Milan á síðustu leiktíð.

„Þetta veltur allt á því hvað Arsenal vill gera. Ég vill vera áfram hjá AC Milan þar sem ég sé ekki pláss fyrir mig í vörn Arsenal," segir Senderos.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×