Enski boltinn

O'Neill reiðubúinn að leyfa Barry að fara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martin O'Neill, stjóri Aston Villa.
Martin O'Neill, stjóri Aston Villa. Nordic Photos / Getty Images

Martin O'Neill, knattspyrnustjóri Aston Villa, segist ekki ætla að standa í vegi fyrir Gareth Barry ef hann vill fara frá félaginu til eins stórliðanna fjögurra á Englandi.

Barry á eitt ár eftir af samningi sínum og var mikið í umræðunni síðastliðið sumar þar sem að Liverpool bauð ítrekað í hann en án árangurs.

„Við myndum gjarnan vilja halda honum en við skiljum að hann er búinn að vera hjá félaginu í ellefu ár," sagði O'Neill í samtali við enska fjölmiðla. „Ef einhver getur boðið honum að spila í Meistaradeild Evrópu myndum við skoða það."

Aston Villa vildi fá um átján milljónir punda fyrir Barry í fyrra en O'Neill óttast ekki að láta hann klára samninginn sinn og fara frítt frá félaginu.

„Það gæti sýnt að við viljum gjarnan halda honum. Þetta snýst ekki um að fá sem mest fyrir hann þar sem hann er á sínu síðasta ári. Ef hann vill sjálfur fá að klára samninginn yrði ég hæstánægður með það."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×