Enski boltinn

West Ham sendi frá sér yfirlýsingu vegna Warnock

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Neil Warnock.
Neil Warnock. Nordic Photos / Getty Images

Íslendingafélagið West Ham birtir í dag á heimasíðu sinni yfirlýsingu vegna umfjöllun enskra fjölmiðla um Neil Warnock, fyrrverandi knattspyrnustjóra Sheffield United.

Málið snertir Tevez-málið svokallaða en West Ham og Sheffield United komust í vikunni að samkomulagi um bótagreiðslu vegna málsins sem ítarlega hefur verið fjallað um.

„Þrátt fyrir ítarlega umfjöllun í fjölmiðlum hefur West Ham ekki móttekið neinar kröfur frá leikmönnum Sheffield United né heldur fyrrverandi knattspyrnustjóra liðsins," sagði í yfirlýsingunni.

Sheffield United fór með Tevez-málið fyrir gerðardóm þar sem niðurstaðan var að West Ham skyldi greiða United skaðabætur fyrir að hafa teflt fram Carlos Tevez í lokaleikjum tímabilsins sem lauk vorið 2007.

Fram kemur í yfirlýsingunni að West Ham telji það ekki mögulegt að fleiri bótakröfur líti dagsins ljós nema að þær fari í gegnum sama ferli.

„Það er nú að koma í ljós að niðurstaða gerðardómsins getur orðið til þess að fjöldi bótakrafna líti dagsins ljós sem hlýtur að vera slæmt fyrir enska knattspyrnu. Sem knattspyrnufélag erum við afar mótfallin því að þetta mál ílengist enn frekar. Það er meira í húfi en fjárhagur West Ham," sagði í yfirlýsingunni.






Tengdar fréttir

West Ham borgar Sheffield 1,6 milljarð vegna Tevez

West Ham hefur náð samkomulagi við Sheffield United um skaðabætur vegna leikmannsins Carlos Tevez. Mun West Ham greiða Sheffield rúmlega 10 milljónir punda eða 1,6 milljarð kr. og er málið þar með úr sögunni.

West Ham og Sheff. Utd ná sáttum

West Ham og Sheff. Utd hafa loksins náð sáttum í málinu endalausa um Carlos Tevez. Samkomulag náðist áður en málið fór fyrir dómara og virðist vera almenn sátt um málalok.

Warnock gæti kært vegna Tevez-málsins

Neil Warnock, fyrrum stjóri Sheff. Utd, gæti leitað réttar síns í Teve-málinu í kjölfar þess að West Ham náði samkomulagi við félagið vegna Carlosar Tevez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×