Innlent

Sumir syrgja á meðan aðrir fagna

Margir munu líklega sækja kosningavökur í kvöld og nótt. Um fjögurhundruð leigubílar verða á vaktinni. fréttablaðið/e. ól
Margir munu líklega sækja kosningavökur í kvöld og nótt. Um fjögurhundruð leigubílar verða á vaktinni. fréttablaðið/e. ól

Á kosninganótt má búast við heldur meiri ölvun á landinu en venjulega. Það þýðir þó ekki endilega meiri annir hjá lögreglu. Leigubílstjórar mega búast við nægri vinnu, en flestir kjósendur sækja samkvæmi eða halda sig heima fyrri hluta kvölds.

„Oft á tíðum kemur það svo seint og sauðdrukkið til okkar og við strjúkum þeim og annaðhvort fögnum eða syrgjum, eftir því sem við á. Það koma ekki allir glaðir út úr svona kvöldi,“ segir Kormákur Geirharðsson, talsmaður Félags kráareigenda.

Hann segir kosningarnar í ár skera sig úr, því hann hafi aldrei heyrt fólk tala jafn mikið um pólitík á barnum. Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir að fyrir síðustu kosningar hafi selst 32 prósent fleiri lítrar en venjulega. Þó beri að taka þeirri tölu varlega, því það kvöld var einnig Eurovision-keppni.

„En þetta eru helgar þar sem maður getur átt von á ívið meiri sölu,“ segir hún. Helgi Jónsson á Bifreiðastöð Reykjavíkur segir að framboð leigubíla verði svipað á kosninganótt og venjulega, eitthvað um hundrað bílar hjá þeim og líklega um 250 hjá Hreyfli. Alls verði um fjögur hundruð bílar á vakt í borginni. Geir Jón Þórisson lögreglumaður segir að löggæsla verði hefðbundin. Fleiri verði líklega á ferli, en kosninganætur hafi yfirleitt gengið ljómandi vel. - kóþ



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×