Enski boltinn

Ashley Cole fyrstur í yfir hundrað ár til að vinna fimm bikartitla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ashley Cole með bikarinn og gefur táknrænt merki yfir fimm bikarmeistaratitla sína.
Ashley Cole með bikarinn og gefur táknrænt merki yfir fimm bikarmeistaratitla sína. Mynd/GettyImages
Ashley Cole átti mjög góðan leik með Chelsea í úrslitaleik enska bikarsins á móti Everton í dag og var í lok hans kosinn besti maður vallarsins. Cole varð þarna enskur bikarmeistari í fimmta sinn og það gerist ekki á hverri öld enda voru 118 ár síðan að einhver afrekaði það síðast.

Ashley Cole varð nefnilega fyrsti leikmaðurinn síðan 1891 til þess að vinna enska bikarinn fimm sinnum. Það ár vann James Forrest sinn fimmta bikarmeistaratitil með Blackburn Rovers. Þeir félagar eru tveir af fjórum leikmönnum sem hafa orðið fimm sinnum bikarmeistarar.

Cole var að leika sinn sjötta bikarúrslitaleik en hann vann bikarinn þrisvar sinnum með Arsenal (2002, 2003, 2005) og var nú að vinna hann í annað skiptið á þremur árum með Chelsea. Cole tapaði fyrsta bikarúrslitaleiknum sínum með Arsenal á móti Liverpool árið 2001 en hefur síðan unnið fimm í röð.

Flestir bikarmeistaratitlar í Englandi:

5 Charles Wollaston The Wanderers (1872, 1873, 1876, 1877, 1878)

5 Arthur Kinnaird The Wanderers (1873, 1877, 1878; Old Etonians 1879, 1882)

5 James Forrest Blackburn Rovers (1884, 1885, 1886, 1890, 1891)

5 Ashley Cole Arsenal (2002, 2003, 2005; Chelsea 2007, 2009)

4 Joe Lofthouse Blackburn Rovers (1884, 1885, 1886, 1891)

4 Mark Hughes Manchester United (1985, 1990, 1994; Chelsea 1997)

4 David Seaman Arsenal (1993, 1998, 2002, 2003)

4 Ray Parlour Arsenal (1993, 1998, 2002, 2003)

4 Roy Keane Manchester United (1994, 1996, 1999, 2004)

4 Ryan Giggs Manchester United (1994, 1996, 1999, 2004)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×