Enski boltinn

Arsenal hefur áhuga á fyrirliða norska landsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brede Hangeland, í miðju, fagnar hér marki með Fulham.
Brede Hangeland, í miðju, fagnar hér marki með Fulham. Mynd/AFP

The Daily Mirror slær því upp í morgun að enska úrvalsdeildarliðið Arsenal hafi mikinn áhuga á því að kaupa norska varnarmanninn Brede Hangeland frá Fulham en hann hefur vakið mikla athygli fyrir góðan leik á þessu tímabili.

The Daily Mirror segir að Arsenal sé búið að bjóða 8 milljónir enskra punda í Hangeland en Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er staðráðinn að styrkja vörn liðsins. Það er þó ekki víst að Roy Hodgson, stjóri Fulham, tími að láta þennan sterka varnarmann fara.

Hangeland tók við fyrirliðabandinu hjá norska landsliðinu síðasta haust og spilaði frábærlega með Fulham í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Hangeland er 27 ára og 195 sentímetra hár miðvörður sem lék áður með danska liðinu FC Kaupmannahöfn en kemur upprunalega frá Viking.

Fulham endaði í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar á þessu tímabili og fékk ennfremur aðeins 34 mörk á sig í 38 leikjum. Það voru aðeins lið Manchester United, Chelsea og Liverpool sem fengu á sig færri mörk. Þetta er líka besti árangur Fulham frá upphafi og tryggði liðinu sæti í Evrópudeildinni á næsta tímabili.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×