Enski boltinn

Gary Speed nær ekki úrslitaleiknum hjá Sheffield United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Speed, leikmaður Sheffield United.
Gary Speed, leikmaður Sheffield United. Mynd/GettyImages

Gary Speed, reynsluboltinn á miðju Sheffield United, hefur gefið upp á bátinn að hann geti spilað úrslitaleikinn við Burnley á Wembley þar sem liðin spila um sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Sheffield United mætir Jóhannesi Karli Guðjónssyni og félögum í Burnley á mánudaginn kemur og sigurvegari leiksins fylgir Wolves og Birmingham upp í ensku úrvalsdeildina.

Hinn 39 ára gamli leikmaður hefur verið að glíma við meiðsli í baki en hann og forráðamenn Sheffield United voru að vonast til þess að hann yrði búinn að ná sér fyrir leikinn.

Gary Speed hefur ekki spilað síðan í nóvember og það lítur út fyrir það að hugsanlega síðasti leikur hans á ferlinum hafi verið tapleikur á móti Úlfunum í lok nóvember. Speed skoraði 5 mörk í 29 leikjum með United síðan að hann kom til liðsins á nýársdag 2008.

Speed spilaði með Leeds United, Everton, Newcastle United og Bolton Wanderers í ensku úrvalsdeildinni á árunum 1988-2008 og lék alls 640 leiki í efstu deild.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×