Enski boltinn

Ronaldo hlakkar til að spila með Kaka

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cristiano Ronaldo í leik með Manchester United.
Cristiano Ronaldo í leik með Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Cristiano Ronaldo segist hlakka til að spila með Brasilíumanninum Kaka hjá Real Madrid.

Þeir Kaka og Ronaldo eru nýgengnir til liðs við Real fyrir háar fjárhæðir og þá er einn efnilegasti sóknarmaður heims, Karim Benzema, einnig á leið til félagsins.

„Real Madrid er með heimsklassaleikmenn í hverri stöðu rétt eins og Manchester United," sagði Ronaldo í samtali við enska fjölmiðla. „Real á frábæra leikmenn eins og Raul og nokkra mjög efnilega líka."

„Ég hlakka til að spila með þessum leikmönnum og halda áfram að bæta mig sjálfur sem leikmaður."

„En Kaka er einn besti leikmaður heims og það verður frábært að fá að spila með honum. Hann er 27 ára gamall og er því á hátindi ferilsins. Sú tilhugsun að svoleiðis leikmaður geti bætt sig er ógnvekjandi hugsun."

„Ég er viss um að við munum ná vel saman. Manni dreymir um að spila með leikmönnum eins og honum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×