Enski boltinn

Fjórði leikmaðurinn til Úlfanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andrew Surman í leik með Southampton.
Andrew Surman í leik með Southampton. Nordic Photos / AFP
Mick McCarthy, knattspyrnustjóri Wolves, hefur verið duglegur að safna liði fyrir komandi átök í ensku úrvalsdeildinni.

Hann hefur gengið frá kaupum á Andrew Surman frá Southampton fyrir 1,2 milljónir punda. Surman getur spilað á miðjunni eða sem vinstri bakvörður og skrifaði undir þriggja ára samning við félagið.

Þetta eru einnig góðar fréttir fyrir Southampton sem er hlaðið skuldum og er að leita sér að nýjum eigendum.

„Það er frábært að fá tækifæri með Wolves í ensku úrvalsdeildinni," sagði Surman í samtali við heimasíðu félagsins. Hann er 22 ára gamall og hefur skorað átján mörk í 142 leikmum með Southampton.

Wolves hefur á síðustu vikum fengið þá Kevin Doyle, Marcus Hahnemann og Nenad Milijas til liðs við félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×