Enski boltinn

Alan Shearer er sannfærður um að Newcastle bjargi sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alan Shearer, stjóri Newcastle.
Alan Shearer, stjóri Newcastle. Mynd/AFP

Alan Shearer, stjóri Newcastle, er að reyna að tala trúna í sitt fólk. Newcastle, sem situr í fallsæti, sækir Aston Villa heim í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn og þarf bæði að vinna leikinn og treysta á úrslit annarra leikja.

„Ég er fullkomlega sannfærður um að við björgum okkur og það sem skiptir enn meira máli, leikmennirnir mínir eru það líka," sagði Shearer.

„Við gerum okkur fulla grein fyrir því hvað er undir. Við ætlum að gefa okkar frábæru stuðningsmenn eitthvað til að fagna og öskra sig hása yfir," bætti Shearer við.

Newcastle verður að ná betri úrslitum en Hull sem tekur á móti Englandsmeisturum Manchester United. Það eru liðin tuttugu ár síðan að Newcastle féll síðast úr deildinni.

„Þetta er stærra en bikarúrslitaleikur, miklu stærri leikur," sagði Shearer en Newcastle hefur náð í 5 af 21 mögulegu stigi undir hans stjórn. Hann hefur sagt sínum mönnum að gleyma tapinu á móti Fulham um síðustu helgi því geti ekkert breytt þeim úrslitum núna.

„Það eina sem við getum gert eitthvað í er leikurinn um helgina. Við getum farið í leikinn á móti Aston Villa og unnið og þá verður þetta mjög góður dagur fyrir okkur," sagði Shearer.

West Brom er þegar fallið úr ensku deildinni og tvö til viðbótar fara einnig niður. Middlesbrough, Newcastle, Hull og Sunderland keppast við að fylgja West Brom ekki niður í B-deildina á sunnudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×