Enski boltinn

Crouch órólegur yfir óvissuástandinu hjá Portsmouth

Ómar Þorgeirsson skrifar
Peter Crouch.
Peter Crouch. Nordic photos/Getty images

Enski landsliðsframherjinn Peter Crouch hjá Portsmouth vill fá skýr svör um hvað sé eiginlega að gerast hjá Portsmouth áður en hann ákveður að framlengja samning sinn við félagið. Eins og staðan er núna er félagið eigandalaust, þjálfaralaust og fjölmargir leikmenn með lausa samninga og líklega á förum frá félaginu.

„Það eru einhverjir fimmtán leikmenn með lausa samninga og það veit enginn hver verður þjálfari og hvað þá með eigendann. Ég eins og margir aðrir vill fá svör við því hvað sé að gerast og hvað eigi eftir að gerast í sumar. Þetta er mikil óvissa og ég get ekki neitað því að ég er hundfúll yfir stöðu mála," segir Crouch.

Crouch viðurkennir að staða mála hafi verið allt önnur og betri þegar hann ákvað að koma til félagsins á sínum tíma.

„Þegar ég kom til Porstmouth var Harry Redknapp knattspyrnustjóri og félagið státaði af leikmönnum á borð við Jermain Defoe og Lassana Diarra og við vorum að spila í evrópukeppni félagsliða. Ef við ætlum að ná þeim hæðum aftur verðum við að styrkja leikmannahópinn og ég býð eftir að sjá hvort að félagið hafi ekki metnað til þess," segir Crouch.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×