Enski boltinn

Brynjar Björn: Opinn fyrir því að spila í Skandínavíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Brynjar Björn Gunnarsson er líklega á förum frá enska liðinu Reading og samkvæmt frétt á Stöð 2 í kvöld þá er alveg eins líklegt að hann sé á leiðinni í norræna fótboltann á nýjan leik tíu árum eftir að hann fór yfir til Englands.

Brynjar Björn hefur leikið með Reading frá árinu 2005 en hann hefur ekki fengið fengið mörg tækifæri með liðinu að undanförnu. Brynjar Björn er með samning við enska liðið fram á vor en í samtali við íþróttafréttamanninn Hans Bjarnason á Stöð 2 í kvöld kom fram að hans sé að hugsa sér til hreyfings þegar janúarglugginn opnar.

„Það er nokkuð ljóst að ég verð ekki áfram hjá þeim eftir tímabilið. Þjálfarinn þarf kannski að hugsa lengra fram í tímann með liðið sem hann er með núna því hann er með marga unga stráka. Það gæti því verið möguleiki á að ég myndi færa mig eitthvað í janúar." sagði Brynjar Björn á Stöð 2 í kvöld.

Brynjar sagði að ekkert lið væri inn í myndinni hjá honum eins og er. „Þetta er algjörlega á byrjunarstigi og við erum aðeins að líta í kringum okkur. Við erum bæði að skoða lið hérna í Englandi og ef út í það er farið þá er alveg hægt að skoða það líka að fara aftur til Skandínavíu. Ég þekki ágætlega til þar og er mjög opinn fyrir því," sagði Brynjar Björn sem spilaði í Noregi (Valerenga og Moss) og í Svíþjóð (Örgryte) frá 1998 til 1999.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×