Enski boltinn

Emil á leiðinni í ensku b-deildina

Ómar Þorgeirsson skrifar
Emil Hallfreðsson.
Emil Hallfreðsson. Mynd/Daníel

Landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson er kominn til Englands til viðræðna við enska b-deildarfélagið Barnsley um lánssamning frá ítalska b-deildarfélaginu Reggina en frá þessu er greint á heimasíðu Barnsley í dag.

Þar kemur fram að Barnsley hafi jafnframt möguleika á því að kaupa leikmanninn að lánstímanum loknum.

Emil gekk til liðs við Reggina í júlí árið 2007 og skrifaði þá undir fjögurra ára samning við ítalska félagið en fastlega var búist við því að hann yrði á meðal þeirra leikmanna sem myndu róa á önnur mið eftir að félagið féll um deild á síðasta tímabili.

Emil hafði verið sterklega orðaður við ítölsku félögin Parma, Napólí og Cagliari í sumar en Barnsley virðist nú vera lendingarstaðurinn fyrir hinn 25 ára gamla vængmann.

„Við erum búnir að vera lengi á eftir Emil og erum mjög ánægðir með að ná samkomulagi við Reggina. Vonandi verður gengið frá málum við Emil eins fljótt og mögulegt er," segir knattspyrnustjórinn Simon Davey hjá Barnsley í samtali við opinbera heimasíðu félagsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×