Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Vísis þá var kjörklefakúkarinn 26 ára kona. Sjónarvottur sá hana fara inn í kjörklefann í Borgarskóla í Grafarvogi rétt fyrir lokun á laugardagskvöldið. Inn í klefanum gerði hún stykki sín og skeindi sig á kjörseðlinum. Svo braut hún seðilinn saman og skilaði honum í kjörkassann. Atkvæðið ógeðfellda uppgvötaðist stuttu síðar.
Gjörninginn tók hún upp á myndband og birti á heimasíðu aðgerðasinna, aftaka.org. Í fyrstu var myndbandið vistað á Youtube.com en það var fjarlægt af vefnum stuttu síðar. Myndbandið má aftur á móti nálgast á heimasíðu aðgerðasinnanna, hafi einhver geð í sér til þess.
Konan er tuttugu og sex ára gömul og var meðal húsatökumannannna sem voru handteknir á Vatnsstíg byrjun apríl. Ekki náðist í konuna þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Þegar haft var samband við yfirmann kjörstjórnar Reykjavíkurrkjördæmis Norður, Erlu S. Árnadóttur, sagði hún að lögreglan hefði ekki verið kölluð á vettvang vegna málsins.