Enski boltinn

Anelka varð markakóngur

NordicPhotos/GettyImages

Franski framherjinn Nicolas Anelka tryggði sér markakóngstitilinn í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar hann skoraði eitt marka Chelsea í sigri liðsins á Sunderland.

Anelka var markahæstur í deildinni ásamt Cristiano Ronaldo hjá Manchester United fyrir lokaumferðina, en mark Anelka í dag tryggði honum gullskóinn því Ronaldo hvíldi hjá United í dag vegna úrslitaleiksins í Meistaradeildinni í vikunni.

Anelka er annar Frakkinn til að verða markakóngur á Englandi, en áður hafði Thierry Henry afrekað það nokkrum sinnum. Hann er jafnframt þriðji Chelsea-leikmaðurinn til að verða markakóngur á eftir Jimmy Floyd Hasselbaink og Didier Drogba.

Aðeins einu sinni áður í sögu úrvalsdeildarinnar hafa jafn fá mörk dugað til að skila leikmanni markakóngstitlinum, en það var leiktíðina 1997-98 þegar þrír leikmenn voru efstir og jafnir með 18 mörk.

Anelka skoraði alls 25 mörk fyrir Chelsea í vetur á sinni fyrstu heilu leiktíð með Chelsea. Hann skoraði aðeins eitt mark á síðustu leiktíð eftir að hafa verið keyptur í janúarglugganum það ár fyrir 15 milljónir punda frá Bolton.

Markahrókarnir í ensku úrvalsdeildinni í vetur:

Nicolas Anelka (Chelsea) - 19 mörk

Cristiano Ronaldo (Man Utd) - 18

Steven Gerrard (Liverpool) - 16

Robinho (Manchester City) - 14

Fernando Torres (Liverpool) - 13

Darren Bent (Tottenham) - 12

Kevin Davies (Bolton) - 12

Dirk Kuyt (Liverpool) - 12

Frank Lampard (Chelsea) - 12

Wayne Rooney (Man Utd) - 12






Fleiri fréttir

Sjá meira


×