Enski boltinn

Eitt af stærstu afrekum Hiddink að vinna í Mekka fótboltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guus Hiddink, stjóri Chelsea, brá á leik með enska bikarinn.
Guus Hiddink, stjóri Chelsea, brá á leik með enska bikarinn. Mynd/GettyImages

Guus Hiddink, stjóri Chelsea, fékk góða kveðjugjöf frá lærisveinum sínum í Chelsea sem tryggðu sér enska bikarinn í gær í síðasta leiknum undir hans stjórn. Hiddink hrósaði sínum leikmönnum í hástert fyrir að hafa komið sterkir til baka eftir martraðarbyrjun.

„Við vorum harðir af okkur og liðið sýndi enn á ný að það bregst alltaf rétt við mótlæti. Það líkar mér við liðið. Ég hafði mjög gaman af því að vinna með þessum stórstjörnum og þeir sýndu mikinn karakter, í ensku úrvalsdeildinni, í Meistaradeildinni og í dag," sagði Hiddink eftir leikinn.

Hiddink hefur unnið marga stóra og glæsilega sigra á sínum þjálfaraferli en hann metur þennan sigur mikils. „Það var eitt af stærstu afrekunum mínum að ná að vinna í Mekka fótboltans. Það er ekki hægt að útskýra upplifunina að vinna enska bikarinn," sagði Hiddink en FA-bikarinn er elsta keppni í heimi.

„Við erum búnir að leggja mikið á okkur síðan í ferbrúar og ég ber mikla virðingu fryir þessum strákum. Við höfðum spilað vel í öllum keppnum og hápunkturinn var síðan að vinna bikarinn," sagði Hiddink en Chelsea tapaði aðeisn einu sinni í 22 leikjum undir hans stjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×