Enski boltinn

Kuyt: Þetta var erfiður riðill

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dirk Kuyt í baráttunni í kvöld.
Dirk Kuyt í baráttunni í kvöld. Mynd/Anton
Dirk Kuyt var hæstánægður með að Holland tryggði sér þátttökurétt á HM í Suður-Afríku eftir 2-1 sigur á Íslandi á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Þetta var góður leikur hjá okkur. Við stjórnuðum ferðinni í fyrri hálfleik og hefðum átt að skora fleiri mörk en þessi tvö," sagði Kuyt í samtali við Vísi eftir leikinn.

„Síðari hálfeikur reyndist okkur erfiður en við stóðum þó uppi sem sigurvegarar og erum ánægðir með að vera búnir að tryggja okkur inn í úrslitakeppni HM."

Hann sagði það ekki hafa pirrað leikmenn liðsins að hafa ekki náð að innsigla sigurinn með þriðja markinu í leiknum eftir að hafa skorað tvö á fyrsta stundarfjórðungnum.

„Nei, við vissum að við gætum vel unnið leikinn þrátt fyrir það. Þriðja markið hefði vissulega farið langt með tryggja sigurinn og við fengum svo mörg tækifæri til að ná því. Svo fáum við þetta kjánalega mark á okkur undir lokin. Svona er bara fótboltinn."

Holland er nú með fullt hús stiga í riðlinum eftir sex leiki og óhætt að segja að þeir hafi ekki þurft að erfiða sig mikið til þessa. Kuyt segir þó ekki að riðillinn hafi verið auðveldur fyrir þá.

„Alls ekki. Makedónía, Ísland, Skotland og Noregur eru öll mjög nálægt hvoru öðru í riðlinum og við erum afar ánægðir með að hafa unnið öll þessi lið. Svo ég sé alveg heiðarlegur þá eru þetta öll góð lið sem hafa náð góðum úrslitum gegn stórþjóðum undanfarin ár - eins og Ísland gegn Spánverjum hér í Reykjavík og Skotar gegn Frökkum í Frakklandi. Ég vona innilega að það lið sem nær öðru sæti riðilsins komist áfram á HM."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×