Enski boltinn

Bilic hefur áhuga á að tala við Portsmouth

Ómar Þorgeirsson skrifar
Slaven Bilic.
Slaven Bilic. Nordic photos/Getty images

Umboðsmaður Slaven Bilic, landsliðsþjálfara Króatíu, hefur sagt skjólstæðing sinn vera mjög áhugasaman um að tala við forráðamenn Portsmouth um lausu knattspyrnustjórastöðuna hjá félaginu.

Paul Hart var ráðinn bráðabirgðastjóri hjá Portsmouth á síðustu leiktíð og stýrði félaginu í lokaleikjum tímabilsins en samningur hans við félagið verður líklega ekki framlengdur eftir að billjarðamæringurinn Sulaiman Al-Fahim kom til kastanna. En Al-Fahim er við það að festa kaup á félaginu.

Bilic er á meðal þeirra nafna sem hafa komið inn í umræðuna hjá Portmouth en Al-Fahim, sem hjálpaði Abu Dhabi fjárfestingarfélaginu að kaupa Manchester City í fyrra, ætlar sér stóra hluti með félagið.

„Slaven er tilbúinn að hlusta á samningstilboð frá Portsmouth. Það eru fleiri félög á eftir honum en það er ekkert í hendi ennþá sem hægt er að staðfesta í þessum efnum. Slaven þráir að finna rétta félagið sem gefur honum tíma til þess að byggja umgjörð og ná árangri," segir Rudi Vata umboðsmaður fyrrum varnarjaxlsins.

Bilic er vitanlega ekki ókunnur enska boltanum en hann lék á árum áður með bæði West Ham og Everton við góðan orðstír.

Landsliðsfyrirliðinn Hermann Hreiðarsson leikur sem kunnugt er með Portsmouth.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×