Enski boltinn

Zaki: Aston Villa reyndi að kaupa mig í janúar

Ómar Þorgeirsson skrifar
Amr Zaki í leik með Wigan á síðasta tímabili.
Amr Zaki í leik með Wigan á síðasta tímabili. Nordic photos/Getty images

Egyptski framherjinn Amr Zaki, sem sló eftirminnilega í gegn sem lánsmaður hjá Wigan á síðasta keppnistímabili í ensku úrvalsdeildinni, heldur því fram að Aston Villa hafi reynt að kaupa sig í félagsskiptaglugganum í janúar.

„Aston Villa bauð 11 milljónir punda í mig í janúar en Wigan hafði forkaupsrétt á mér neitaði að taka við bótum og þar við sat. Wigan ætlaði svo að kaupa mig eftir tímabilið en það breyttist eftir að Steve Bruce hætti hjá félaginu," segir Zaki í viðtali við Birmingham Mail.

Zaki hefur lýst því yfir að hann vilji koma aftur í ensku úrvalsdeildina en hann er samningsbundinn El Zamalek frá Egyptalandi en félagið er sagt vilja fá 12 milljónir punda fyrir leikmanninn.

Ekki er vitað hvort að Martin O´Neill hafi enn áhuga á Zaki en hinn 26 ára gamli framherji lék að margra mati mun betur á fyrri hluta tímabilsins en þeim síðari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×