Innlent

Lögreglumenn vilja Ísland úr Schengen

Lögreglumenn á Vestfjörðum telja farsælla að Ísland hætti í Schengen og efli í staðinn eigið landamæraeftirlit. fréttablaðið/Stefán
Lögreglumenn á Vestfjörðum telja farsælla að Ísland hætti í Schengen og efli í staðinn eigið landamæraeftirlit. fréttablaðið/Stefán

Félagsmenn í Lögreglufélagi Vestfjarða vilja að Ísland hætti þátttöku í Schengen-samstarfinu og taki í staðinn upp vegabréfaeftirlit eins og tíðkaðist áður en til Schengen-aðildar kom 2001.

Ályktun þess efnis var samþykkt á aðalfundi félagsins á miðvikudag og skorað á ríkisstjórn og Alþingi að skoða málið.

Gylfi Þór Gíslason, lögreglumaður á Ísafirði og formaður lögreglufélagsins, segir að aðild að Schengen hafi ekki gefið góða raun. Fólk sem hingað komi í þeim tilgangi að fremja afbrot eigi greiða leið inn í landið. Hann segir að lögreglan hafi ekki mannafla til að stemma stigu við vaxandi glæpastarfsemi í landinu og því verði að bregðast við með einhverjum hætti. Þó að fjölga þyrfti fólki í landamæraeftirliti myndi það álag sem fylgir löggæslu og öðru umstangi vegna glæpa minnka.

Gylfi telur einsýnt að með sjálfstæðu og öflugu landamæraeftirliti yrði hægt að stöðva talsvert af því fólki sem kemur til landsins til að fremja glæpi. Sú skipulagða glæpastarfsemi sem talin er hafa skotið hér rótum kunni að hafa gert það í skjóli frjálsu fararinnar.

Á aðalfundinum var jafnframt ályktað um rafbyssur og ákvörðun ríkislögreglustjóra um að sérsveitarmenn einir noti slík valdbeitingartæki hörmuð.

„Þetta er spurning um öryggi. Við getum lent í að fást við brjálaða menn og getum kannski ekki annað en beðið eftir sérsveitarmönnum,“ segir Gylfi. Óskað er skýringa ríkislögreglustjóra á ákvörðuninni. Aðalfundurinn skorar jafnframt á dómsmálaráðherra að hætta við fyrirhugaðan niðurskurð hjá lögreglu enda komi hann niður á öryggi lögreglumanna og þjónustu þeirra við landsmenn.

bjorn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×