Innlent

Framsóknarmenn styðja ekki frumvarp fjármálaráðherra

Framsóknarmenn ætla ekki að styðja frumvarp fjármálaráðherra um stofnun sérstaks hlutafélags sem á að taka yfir og endurskipuleggja gjaldþrota fyrirtæki. Þeir segja frumvarpið vera meingallað og auki hættu á spillingu.

Sjálfstæðismenn hafa einnig gagnrýnt frumvarpið og með þessari afstöðu framsóknarmanna er ljóst að ekki er meirihluti á Alþingi fyrir frumvarpinu.

Frumvarp fjármálaráðherra byggir á starfsáætlun samráðsnefndar um endurreisn fjármálakerfisins.

Í því er gert ráð fyrir að ríkið stofni sérstakt eignaumsýslufélag.

Félagið mun hafa það hlutverk að kaupa og endurskipuleggja þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki sem bankarnir hafa tekið yfir vegna greiðsluerfiðleika.

Ríkissjóður mun leggja félaginu til 20 milljarða króna en gert er ráð fyrir því að fyrirtækin verði seld að lokinni endurskipulagningu.

Aðilar vinnumarkaðarins, þar á meðal Samtök Atvinnulífsins sem og Alþýðusamband Íslands hafa gagnrýnt frumvarpið harðlega og beinlínis vara við því að það verði samþykkt í núverandi mynd.

Sérstaklega þykir mönnum hættulegt hversu víðtækar heimildir stjórn félagsins fær til ákveða hvaða fyrirtæki lifa og hver deyja.

Þetta auki hættuna á spillingu enda ekki víst að ákvarðanir verði alltaf teknar á faglegum forsendum.

Birkir J. Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði í samtali við fréttastofu í dag ljóst að Framsóknarflokkurinn muni ekki styðja frumvarpið í núverandi mynd.

Önnur umræða um frumvarpið er á dagskrá Alþingis á morgun.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×