Enski boltinn

Wenger ætlar að kaupa framherja í janúarglugganum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger veit að Arsenal-liðið þarf nýjan og aðallega hávaxinn framherja.
Arsene Wenger veit að Arsenal-liðið þarf nýjan og aðallega hávaxinn framherja. Mynd/AFP

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur gefið það út að hann ætli að kaupa framherja til liðsins þegar félagsskiptaglugginn opnar í janúar en hann leggur jafnframt áherslu á það að hann ætli ekki að láta þvinga sig til að borga svimandi háa upphæð fyrir nýjan leikmann þótt að nauðsyn sé að bæta við sóknarmann í meiðslahrjáða framlínu liðsins.

Arsenal-liðið verður án Hollendingsins Robin van Persie næstu fimm mánuði en hann hafði skorað 8 mörk í 11 leikjum þegar hann meiddist á ökkla. Daninn Nicklas Bendtner hefur einnig verið frá í þrjár vikur eftir að hafa farið í uppskurð á nára en hann ætti að koma til baka eftir tvær vikur.

Marouane Chamakh hjá Bordeaux og Mario Balotelli, 21 árs landsliðsmaður Ítala, hafa báðir verið orðaðir við Arsenal. „Við verðum út á markaðnum í janúar en við munum aðeins ákveða að kaupa leikmann ef það hentar okkur," sagði Wenger.

Arsenal hefur ekki skorað í síðustu tveimur deildarleikjum sínum eftir að hafa skorað 36 mörk í fyrstu 11 leikjum sínum á tímabilinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×