Enski boltinn

Deildin væri leiðinleg ef allir spiluðu eins og Sunderland

NordicPhotos/GettyImages

Arsene Wenger viðurkenndi að Sunderland hefði leikið sterkan og góðan varnarleik í dag þegar liðið kom á Emirates og náði markalausu jafntefli við hans menn í Arsenal.

Wenger hrósaði sínum mönnum fyrir ágætan leik þó mörkin létu á sér standa, en gat þó ekki sagt að sér hefði verið skemmt yfir taktík gestanna.

"Við lékum ágætlega og settum á þá mikla pressu, en vörn þeirra og markvörður áttu góðan dag. Þeir spiluðu með einn mann frammi og voru með tíu menn fyrir aftan boltann eins og öll lið gera þegar þau koma hingað," sagði Wenger og gat ekki stillt sig um að skjóta aðeins á andstæðinga sína.

"Þeir léku mjög vel varnarlega en ég vil ekki hrósa þeim um of. Ef allir spiluðu eins og þeir gerðu í dag, væri ekki mjög gaman að horfa á leiki í úrvalsdeildinni," sagði Frakkinn.

Hann var þokkalega ánægður með frumraun rússneska landsliðsmannsins Andrei Arshavin.

"Hann sýndi brot af því sem hann getur, en hann er auðvitað ekki kominn í fullt líkamlegt form enn sem komið er."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×