Erlent

Að gera sem minnst í vinnunni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Bandarískur rithöfundur segir fólk enn þá geta komist upp með að gera sem minnst í vinnunni, hvað sem kreppuástandi líður.

Stanley Bing er sérkennilegur rithöfundur. Hann fæst einkum við að skoða vinnustaði og hefur gefið út fjölda sjálfshjálparbóka fyrir vinnandi fólk, flestar um það hvernig heppilegast sé að gera sem minnst í vinnunni og komast upp með það. Nýjasta bók hans, Hvernig á að lifa af á nýja vinnustaðnum, sem kemur út eftir viku, er endurútgáfa fyrri bókar hans, Að láta af störfum í vinnunni, eða How to Retire While You're Still Working, og er nýja bókin sérstaklega sniðin að kreppuástandi nútímans.

Bækur Bing snúast þó ekki að öllu leyti um hvernig stunda skuli letilíf við skrifborðið, undir niðri eru þær í reynd margslungnir leiðbeiningabæklingar um tímaskipulagningu og mótun draumastarfsferilsins. Hann kennir fólki í raun að nota aðferðir yfirmannsins til að komast á toppinn. Og þar talar hann af reynslu. Stanley Bing heitir nefnilega alls ekki Stanley Bing heldur er hann í raun Gil Schwartz, aðstoðarframkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs CBS-fjölmiðlarisans. Stanley Bing er hins vegar höfundarnafn sem hann tók upp þegar hann gerðist dálkahöfundur fyrir Esquire-tímaritið.

Þungamiðjan í fræðum Schwartz, eða Bing, er að koma sér upp aðstoðarmanni og takist það ekki nota þá aðstoðarmenn annarra sem sína. Þetta sé það sem að lokum skili flestum á toppinn. Dæmi hver sem vill um það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×