Enski boltinn

Gerrard: Ég er engin goðsögn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Steven Gerrard viðurkennir að það fari verulega í taugarnar á honum að Liverpool skuli ekki vera með í toppbaráttunni í enska boltanum í vetur.

Liverpoo er sem stendur í 7. sæti deildarinnar heilum 12 stigum á eftir toppliði Chelsea. Það verður því barátta hjá Liverpool að enda á meðal fjögurra efstu liða.

„Það er mjög pirrandi að vera þar sem við erum núna því þetta átti að vera árið þar sem við myndum berjast alla leið. Það myndi skipta öllu máli að vinna ensku deildina og það er líka pirrandi að okkur hafi ekki enn tekist það eftir að hafa komist nálægt," sagði Gerrard.

„Ég mun berjast fyrir þessum bikar þangað til ég legg skóna á hilluna. Vonandi get ég bætt þessum bikar við safnið hjá mér því það myndi fullkomna góðan feril."

Gerrard, sem verður þrítugur í maí, viðurkennir að tíminn sé að hlaupa frá honum.

„Ég hef verið í eldlínunni í 11 ár þannig að ég á ekki mörg ár eftir í boltanum. Það eru ekki mörg tækifæri eftir til þess að vinna þennan bikar. Ég á enn stóra drauma sem ég ætla að láta rætast áður en ég hætti," sagði Gerrard sem segist ekki vera nein goðsögn hjá Liverpool.

„Ég lít ekki á mig sem Liverpool-goðsögn. Það er aðeins hægt að kalla leikmenn goðsagnir þegar ferlinum er lokið og eftir stendur frábær árangur. Menn eru byrjaðir að deila út þessum titli allt of snemma að mínu mati. Dalglish, Rush og Hansen eru goðsagnir. Vonandi get ég litið til baka síðar og sagt að ég tilheyri þeim hópi."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×