Innlent

Skattbyrðin eykst um 90 þúsund krónur á mánuði

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Skattbyrðin á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu mun aukast að meðaltali um 90 þúsund krónur á mánuði, þegar skattahækkanir í aðgerðaáætlun stjórnvalda verður komin að fullu til framkvæmda, segir Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur. Hann óttast að bresta muni á með landflótta.

Eftir stríð fundahöld undanfarið náðist að undirrita stöðugleikasáttmála á vinnumarkði í gær. Hörðust voru átökin um hversu stórum hluta af halla ríkissjóðs ætti að ná niður með skattahækkunum. Niðurstaðan var 45%. Fjárlög eiga að komast niður að núllinu árið 2012.

Fréttastofa leitaði í dag til Benedikts Jóhannessonar stærðfræðings og ritstjóra Vísbendingar um að reikna út hvað þessi aukna skattbyrði gæti þýtt fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu, þegar hækkanir verða komnar að fullu til framkvæmda. Svarið: Hún mun borga 90 þúsund krónum meira í skatta á hverjum mánuði - árið 2012. Benedikt óttast afleiðingarnar ef þetta dugar ekki til.

Óvíst sé að byrðin komi betur út fyrir lágtekjufólk, því neysluskattarnir gefi ríkinu mestar tekjur - og allir þurfi jú að nota bensín, fólk drekki áfengi, gos, reyki og borði, hverjar sem tekjurnar eru.

Benedikt hvetur stjórnvöld til að skoða í hörgul þá hugmynd að skatta iðgjöld inn í lífeyrissjóði en ekki út úr þeim eins og nú er.

Þá væri hægt að lækka þessar níutíu þúsund krónur niður í 50, segir Benedikt. Hætt sé við að að margar fjölskyldur geti ekki staðið undir þessari byrði og því þurfi að skoða hugsanlega leiðréttingu skulda heimilanna vandlega, þá hugmynd megi ekki afskrifa sem loddarabrögð í efnahagslegum hamförum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.