John Terry segist hafa verið upp með sér vegna áhuga Manchester City en lengra hafi það ekki náð. Hann hafi ekki viljað fara til félagsins.
City bauð tvívegis í Terry en í bæði skiptin var tilboðinu hafnað. Framtíð Terry var þó óljós þar til hann gaf frá sér yfirlýsingu í lok síðasta mánaðar þar sem hann sagðist ætla vera áfram í herbúðum Chelsea.
„Ef ég hefði freistast af þessu tilboði hefði ég farið," sagði Terry í samtali við enska fjölmiðla. „Ég var upp með mér vegna tilboðsins en lengra náði það ekki. Tilboðið var upp á 28 milljónir punda en ég veit ekki hvað þeir voru tilbúnir að borga mér."
„Ég fékk símtal frá Peter Kenyon (framkvæmdarstjóra Chelsea) og sagði honum að ég vildi ekki fara."