Ökumaður á stolnum bíl var handtekinn í grennd við verslunarmiðstöðuna Smáralind nú fyrir skömmu. Lögregla veitti manninum eftirför sem ók á móti umferð. Mikil hætta stafaði af manninum, að sögn lögreglu.
Lögreglumenn urðu varir við bílinn í Hafnarfirði en honum var stolið í nótt. Í kjölfarið hófst eftirför þar sem ökumaðurinn virti ekki stöðvunarmerki lögreglu heldur jók hraðann og ók áfram inn í Kópavog. Þar ók maðurinn meðal annars á móti umferð. Að minnsta kosti sex lögreglubílar tóku þátt í eftirförinni, þar á meðal bifreið með sérsveitarmönnum. Ein lögreglubifreið hið minnsta skemmist í eftirförinni sem lauk í Lindarhverfi þegar ökumaðurinn velti bifreiðinni á horni Fífuhvammsvegar og Hlíðardalsvegar.
Ekki fengust upplýsingar hjá lögreglu hvort lögreglumenn eða ökumaðurinn hefðu slasast.