Íslenski boltinn

Heimir Hallgríms: Erum að afsanna hrakspár

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. Mynd/Daníel

Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, var nokkuð sáttur með stigið í kvöld en sagðist hafa viljað fá meira en spiluðu hans menn flottan fótbolta í Grindavík í kvöld.

Eyjamenn hafa sýnt mikinn karakter í sumar og rifið sig upp úr erfiðri stöðu. Þeir skoruðu ekki í fyrstu leikjunum, fengu vart stig og slík byrjun hefði eflaust brotið mörg lið en ekki Eyjaliðið.

„Ég man nú eftir grein sem þú skrifaðir eftir leik okkar gegn Fylki þar sem þú sagðir að Eyjaliðið ætti ekki skilið að vera í efstu deild. Við stækkuðum þá grein upp í A6 held ég og hengdum greinina upp í klefanum hjá okkur. Við erum að afsanna þau orð þín og annarra spekinga," sagði Heimir lævís við blaðamann Vísis.

„Við vissum alltaf að það tæki tíma að slípa okkar leik. Auðvitað hefði verið gott fyrir þetta unga lið að fá fleiri stig í byrjun upp á sjálfstraustið. Við höfum aðeins tapað einum leik í seinni umferðinni og erum þess utan að spila flottan fótbolta.

Ég er ánægður með þann karakter sem þetta unga lið hefur sýnt. Ef mið er síðan tekið af fjármununum sem við höfum úr að spila er þetta í raun fyndið bara hvað við höfum afrekað," sagði Heimir stoltur og mátti vera það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×