Enski boltinn

Guðjón óánægður með framherjana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Þórðarson, þjálfari Crewe.
Guðjón Þórðarson, þjálfari Crewe. Nordic Photos / Getty Images

Guðjón Þórðarson hefur lýst vonbrigðum sínum með framherja Crewe sem hafa ekki skilað sínu í síðustu leikjum liðsins í ensku C-deildinni.

Fá félög eyddu jafn miklu í leikmannakaup síðastliðið sumar og Crewe en félagið keypti leikmenn fyrir 800 þúsund pund. Stærsti hluti þeirrar upphæðar fór í framherjana Calvin Zola, Joel Grant, Clayton Donaldson og Anthony Elding.

En þessir framherjar hafa samanlagt aðeins skorað eitt mark í síðustu sjö leikjum liðsins. Það hafa verið leikmennirnir Shaun Miller og Tom Pope sem hafa verið hvað duglegastir við að skora mörk liðsins en þeir eru báðir uppaldir hjá félaginu.

Crewe hefur ekki unnið í síðustu níu leikjum liðsins og hefur markaleysið verið helsta ástæðan fyrir því gengi. Fyrir vikið er liðið nú í fallsæti þegar ein umferð er eftir og á litla möguleika á að halda sæti sínu í deildinni.

Crewe tapaði síðast fyrir Stockport, 4-3, í deildinni en öll mörk liðsins voru skoruð af varnarmönnum.

„Hvar eru mörkin frá framherjunum okkar," sagði Guðjón í samtali við enska fjölmiðla. „Ég get ekki talið öll þau færi sem við höfum skapað okkur en það þarf að klára þessi færi."

„Við skoruðum þrjú mörk en það er engu að síður hneykslanlega lítið miðað við öll færin sem fóru forgörðum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×