Enski boltinn

Emil skoraði í ókláruðum leik - Gylfi skoraði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emil Hallfreðsson í leik með íslenska landsliðinu.
Emil Hallfreðsson í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Anton

Emil Hallfreðsson skoraði eitt mark og lagði upp annað er Barnsley var á góðri leið með að vinna sigur á Plymouth í ensku B-deildinni í dag. Hætta varð þó leik vegna rigningar á 58. mínútu.

Leikmenn áttu í miklum vandræðum með að standa í lappirnar á hundblautum vellinum og er niðurstaðan einkar svekkjandi fyrir Emil og félaga.

Kári Árnason var ekki í leikmannahópi Plymouth í dag.

Heiðar Helguson var í byrjunarliði Watford sem tapaði fyrir Crystal Palace á útivelli, 3-0. Heiðar var tekinn af velli á 85. mínútu.

Gylfi Þór Sigurðsson hélt upp á að hann skrifaði í vikunni undir nýjan langtímasamning við Reading er hann skoraði fyrir liðið í dag. Því miður dugði það ekki til sigurs þar sem liðið tapaði fyrir Derby á útivelli, 2-1.

Ívar Ingimarsson lék allan leikinn fyrir Reading en Gylfi var tekinn af velli á 65. mínútu.

Aron Einar Gunnarsson spilaði fyrstu 80 mínúturnar er Coventry gerði 2-2 jafntefli við QPR á útivelli.

Newcastle er á toppi deildarinnar með 39 stig eftir að liðið vann 3-0 sigur á Swansea í dag. West Brom er í öðru sæti með 37 stig og Leicester í því þriðja með 31 stig.

Watford er í níunda stæi með 27 stig, Barnsley í fimmtánda með 21, Coventry í sautjánda með nítján, Reading í 21. sæti með sautján stig og Plymouth í 22. sæti með fimmtán stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×