Enski boltinn

Mótttökurnar komu Tevez á óvart

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez í leiknum um helgina.
Carlos Tevez í leiknum um helgina. Nordic Photos / Getty Images

Carlos Tevez, leikmaður Manchester City, segir að það hafi komið sér á óvart hversu slæmar viðtökur hann fékk hjá stuðningsmönnum Manchester United þegar liðin mættust um helgina.

Tevez var á mála hjá United í tvö ár en fór til City í sumar. Stuðningsmenn United púuðu á hann allan leikinn og talið er að aðskotahlutur sem var kastað í Javier Garrido þegar leikmenn fóru af velli í lok fyrri hálfleiks hafi verið ætlaður Tevez.

„Ég verð að viðurkenna að ég átti von á að fá allt önnur viðbrögð frá stuðningsmönnum United," sagði Tevez í samtali við enska fjölmiðla.

„Fyrir leik var allt í góðu. Ég heilsaði starfsmönnum félagsins og fyrrum liðsfélögum mínum án þess að nokkuð væri að."

„En stemningin var allt önnur inn á vellinum. Það fannst mér erfitt því ég var alltaf vel studdur af þessu fólki áður."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×