Enski boltinn

Neville mögulega refsað fyrir fagnaðarlæti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gary Neville fagnar sigurmarki United með því að hlaupa í átt að stuðningsmönnum City.
Gary Neville fagnar sigurmarki United með því að hlaupa í átt að stuðningsmönnum City. Nordic Photos / Getty Images

Gary Neville gæti hafa komið sér í vandræði þegar hann fagnaði sigurmarki Manchester United í borgarslagnum gegn Manchester City á sunnudaginn.

Neville var varamaður hjá United og kom ekki við sögu. En þegar að Michael Owen skoraði sigurmarkið á sjöttu mínútu uppbótartíma leiksins fagnaði Neville vel og innilega.

Neville hljóp meðfram hliðarlínunni í átt að stuðningsmönnum City. Fram kemur í frétt The Sun um málið að þegar Neville áttaði sig á því að hann hefði gengið of langt hafi hann hætt að fagna og bara þóst vera að hita upp - þó svo að Alex Ferguson, stjóri United, hafi verið búinn að nota allar sínar þrjár skiptingar í leiknum.

„Neville var að hlaupa um eins og brjálæðingur," sagði Mark Hughes, stjóri City, um hegðun hans.

Árið 2006 var Neville sektaður um 5000 pund af enska knattspyrnusambandinu fyrir að fagna sigurmarki Manchester United gegn Liverpool fyrir framan stuðningsmenn síðarnefnda liðsins.

Þá hefur Emmanuel Adebayor, leikmaður City, verður kærður af enska knattspyrnusambandinu fyrir að fagna sínu marki gegn Arsenal fyrir framan stuðningsmenn síðarnefnda liðsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×