Fótbolti

Gerrard: Einn sigur í viðbót

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Nordic Photos/Getty Images

Steven Gerrard segir að sigur gegn Andorra á miðvikudag muni fleyta enska landsliðinu inn á HM næsta sumar.

Miðjumaðurinn átti stóran þátt í fyrstu tveim mörkum Englands gegn Kasakstan í gær en England vann leikinn, 4-0. Enska liðið er búið að vinna alla leiki sína í riðlinum.

„Ég held að ef við vinnum Andorra þá sé þetta komið hjá okkur. Ég held að við séum einum sigri frá HM," sagði Gerrard.

„Við megum samt ekki missa okkur og fara fram úr okkur. Við þurfum að vera einbeittir og fagmannlegir í okkar nálgun. Klára verkefnið þá getum við farið í erfiðari leiki með nóg af sjálfstrausti," bætti Gerrard við.

„Það eru allir rosalega einbeittir á að komast til Afríku. Það var mikið áfall að komast ekki á síðasta EM og leikmenn voru lengi að jafna sig á því. Við skuldum stuðningsmönnum okkar það að komast á HM."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×