Innlent

Vongóður um að handritasafn komist á lista UNESCO

Vésteinn Ólason, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar.
Vésteinn Ólason, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar.
Forstöðumaður Árnastofnunar er vongóður um að handritasafn Árna Magnúsonar verði sett á lista UNESCO yfir minni heimsins. Gengið var frá formlegri umsókn fyrr í vetur en endanleg ákvörðun ætti liggja fyrir seint á næsta ári.

Listinn yfir minni heimsins var stofnaður árið 1992. Tilgangurinn var að vekja athygli og varðveita andlegan menningararf veraldar en þjóðir heims geta tilnefnt skjöl og rit á listann.

Undirbúningur að tilnefningu handritasafns Árna Magnússonar á listann hófst fyrir nokkrum árum en endanlega var gengið frá umsókninni fyrir um mánuði.

Vésteinn Ólason, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, segir umsóknina sérstaka því Danir og Íslendingar standa saman að umsókninni. „Fyrst og fremst lítum við á þetta sem bæði viðurkenningu á gildi safnsins og vissu leyti minnismerki um starf Árna Magnúsonar sem var mjög merkilegt og gefur okkur tilefni til að gera ennþá betur grein fyrir því," segir Vésteinn.

Hann segist vera vongóður um að handritasafnið komist á listann. „Auðvitað er það svo að það er sótt um marga hluti á hverju ári og þjóðir hafa verið misduglegar. Þetta er í fyrsta skipti sem við eigum aðild að slíkri umsókn og þetta getur tekið eitt til tvö ár áður en við vitum hvort að þetta verður samþykkt en ég er mjög vongóður um það," segir Vésteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×