Innlent

Ekki góður bragur á því að hafa reykherbergi á þingi

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra sagði ekki góðan brag á því að heimila reykingar í herbergi í Alþingishúsinu í ljósi þess að þingið hefði samþykkt lög um að banna reykingar á opinberum stöðum. Lagði hann til að herberginu yrði lokað.

 

 

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri - grænna, vakti athygli á þeirri deilu sem uppi hefur verið um reykingar á veitingastöðum. Vísaði hann til þess að kráareigendur hefðu mótmælt því að mega ekki hafa reykherbergi með því að heimila reykingar á stöðum sínum á dögunum. Þetta mál vekti upp spurningar um reykingabann og baráttuna við reykingar í samfélaginu.

Dregið hefði úr reykingum undanfarin ár eftir þrotlausa forvarnavinnu. Samfélagslegar afleiðingar reykinga væru alvarlegar og kostnaður þjóðarbúsins vegna þess árið 2003 hefði verið 20 milljarðar á verðlagi ársins 2000. Tóbaksvarnir væru stórt heilbrigðismál og lýðheilsumál og spurði hann ráðherra hvort hann hygðist standa vörð um tóbaksvarnarlögin.

 

 

Guðlaugur Þór svaraði því til að hann hygðist gera það. Markmiðin væru skýr og Íslendingar hefðu náð árangri á þessum vettvangi, sérstaklega hjá þeim sem yngstir eru. Sagðist hann vilja nýta þær forvarnaraðferðir víðar.

 

 

Heilbrigðisráðherra sagði að menn ættu þó að byrja að taka til heima hjá sér. Vísaði Guðlaugur til þess að reykherbergi væri fyrir starfsmenn Alþingis. Sagði hann ekki góðan brag á því að Alþingi, sem samþykkt hefði tóbaksvarnarlögin, byði upp á slíkt. Sagðist hann hafa fengið fjöldan allan af athugasemdum frá fólki vegna þessa. Lagði hann til að þingmenn gengju í það að losa sig við reykherbergi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×