Innlent

Segir matvælaverð hjá sér hugsanlega tvöfaldast

Ólafur Johnson er lengst til hægri á myndinni.
Ólafur Johnson er lengst til hægri á myndinni.

„Innflutningsaðilar geta illa staðið á móti þessum erlendu verðhækkunum sem eru að tröllríða heiminum," sagði Ólafur Johnson, framkvæmdastjóri Ó. Johnson & Kaaber. „Hækkanir á erlendum mörkuðum hófust í október og um svipað leyti fór gengið að síga líka. Menn brugðust ekki mikið við þessu þá og tóku hækkanirnar bara á sig. Hjá mínu fyrirtæki hækkuðum við verðið í kringum áramót í kjölfar hækkana hjá birgjum og eftir þetta hefur gengið verið í frjálsu falli."

Ólafur sagði enn fremur að hækkanir væru ekki farnar að skila sér í verslanirnar nema að nokkru leyti: „Ég held að fæstir innflytjendur séu enn búnir að taka inn að fullu hjá sér þessar mestu hækkanir á hrávöru erlendis. Erlent innkaupsverð á hveiti hefur farið 50 − 70% upp, hrísgrjón 60% og munu hækka, hrákaffi 40% og sulta og ávextir um 30%. Þetta eru bara verðhækkanirnar erlendis og ofan á þær leggst svo fall gengisins sem hefur verið 38% síðan í október auk annarra kostnaðarhækkana. Ef heldur áfram sem horfir get ég ímyndað mér að einhver hluti af innfluttum matvælum hjá mér tvöfaldist í verði frá október síðastliðnum fram í október á þessu ári," sagði Ólafur.

Hann telur óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin beiti sér af alefli fyrir bættum hag almennings og fyrirtækja landsins. „Ég held að hún verði að gera það, það er engin spurning. Það þarf að taka á tolla- og innflutningsmálum, hvort sem það er kjöt eða annar innflutningur. Nú er brýnast að halda fyrirtækjum í rekstri og að ríkisstjórnin styðji bankana til að halda hagkerfinu gangandi," sagði Ólafur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×