Innlent

Svipuð hækkun á matvælum og annars staðar á Norðurlöndum

MYND/Sigurður Jökull

Matvæli hafa hækkað álíka mikið hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum á síðastliðnu ári samkvæmt samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Samantektin nær til verðhækkana frá 1. mars 2007, þegar virðisaukaskattur á matvæli var lækkaður og vörugjöld afnumin hér á landi, til 1. febrúar í ár. Á tímabilinu hækkaði matvælaverð á Íslandi um 6,5 prósent, í Danmörku um 7,2 prósent, í Svíþjóð um sex prósent, í Noregi um 3,3 prósent og í Finnlandi um 6,1 prósent. Meðaltalshækkun á matvælum á Norðurlöndunum á þessu tímabili nam því 5,8 prósentum.

Samantekt Rannsóknarsetursins leiðir einnig í ljós meiri hækkanir á neysluverði innlendra matvæla en í framleiðsluverði. Hækkun á framleiðsluverði nemur 4,6 prósentum á tímabilinu frá mars 2007 til febrúar 2008 en á sama tíma hækkuðu sömu vörur um 6,1 prósent í smásölu.

Enn fremur kemur fram í samantektinni að vísitala neysluverðs hefur hækkað meira en verðvísitala dagvöru. Frá mars 2007 til mars 2008 nam hækkun dagvöru 6,4 prósentum en á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 8,7 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×