Innlent

Jón Baldvin vill nýja áhöfn í Seðlabankann

Jón Baldvin Hannibalsson segir að tími sé kominn til að setja nýja áhöfn við stjórn Seðlabankans. Þar eigi fagmenn að stjórna í brúnni en ekki fyrrum pólitíkusar.

Þetta kom meðal annars fram í spjalli sem Sigmundur Ernir Rúnarsson átti við Jón Baldvin í þætti sínum Mannamál á Stöð 2 í kvöld.

Jón Baldvin segir að núverandi forysta Seðlabankans hafi fengið sitt tækifæri og klúðrað því. Allt frá því að bankinn fékk það verkefni að stjórn sjálfstæðri peningamálastefnu árið 2001 hafi honum gersamlega mistekist það ætlunarverk sitt. Jón Baldvin telur það hafa verið mistök að skipa Davíð Oddsson í embætti seðlabankastjóra á sínum tíma.

Jón Baldvin segir að staðan sem komin sé upp núna sé grafalvarleg og hún bitni á allri þjóðinni. Aldrei hafi jafnmargir fengið jafn þungt högg á jafnskömmum tíma og Seðlabankinn ráði ekkert við þetta ástand.

Því vill Jón Baldvin að fagmenn verði settir til að stjórna Seðlabankanum. "Pólitíkusar eiga ekki að vera bankastjórar," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×