Innlent

Tollverðir álykta harðlega gegn hugmyndum dómsmálaráðherra

Fjölmenni var á fundinum í kvöld.
Fjölmenni var á fundinum í kvöld. MYND/Víkurfréttir - Þorgils

Fjölmenni var á fundi tollvarða sem haldinn var í kvöld í Leifsstöð í Keflavík. Tollverðir eru óánægðir með hugmyndir dómsmálaráðuneytis þess efnis að aðskilja lögreglu og tollgæslu á Suðurnesjum. Á fundinum var samþykkt ályktun þar sem áformunum er einhliða mótmælt og sagt að breytingin verði til þess að eftirlit með ólöglegum innflutningi til landsins geti versnað í kjölfarið. Ályktunin var einróma samþykkt.

„Tollverðir mótmæla einhliða ákvörðun dómsmálaráðuneytisins er varðar upplausn sameinaðs löggæsluembættis Suðurnesja," segir í ályktuninni sem er í fimm liðum. „Tollverðir sjá engar efnislegar eða fjárhagslegar ástæður fyrir þessari ákvörðun og óska eindregið eftir að hún verði tekin til endurskoðunar. Tollverðir óttast þau áhrif, sem ákvörðunin getur haft á hinn góða starfsanda og frábæra árangur, sem undanfarin ár hefur einkennt embætti Jóhanns R. Benediktssonar lögreglu- og tollstjóra."

Í ályktuninni segir ennfremur að tollverðir óttist að hin áratuga langa og góða samvinna löggæsluaðila á Suðurnesjum muni minnka auk þess sem fíkniefnaeftirlit, tolleftirlit, eftirlit með innflutningi á vopnum og öðrum ólöglegum varningi og innheimta aðflutningsgjalda „verði óskilvirkari og versni í kjölfar þessara breytinga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×