Innlent

Svör ráðherra lýsa sérkennilegri afstöðu til menntunar

Svör Árna Mathiesen til umboðsmanns Alþingis lýsa heldur sérkennilegri afstöðu fjármálaráðherra til menntunar, rannsókna og háskólakennslu á 21. öld, segir Pétur Dam Leifsson, einn af umsækjendum um stöðu héraðsdómara á Norðurlandi.

Pétur Dam Leifsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, og Guðmundur Kristjánsson hæstaréttarlögmaður sendu í janúar formlega kvörtun til umboðsmanns alþingis vegna ákvörðunar Árna Mathiesens, setts dómsmálaráðherra, að skipa Þorstein Davíðsson dómara við héraðsdóm Norðurlands eystra.

Fimm sóttu um stöðuna og voru þrír taldir mjög vel hæfir af dómnefnd og voru Pétur og Guðmundur báðir í þeim hópi. Þorsteinn, sem fékk starfið, var metinn tveimur flokkum neðar. Árni Mathiesen gekk því þvert gegn niðurstöðu nefndarinnar. Dómnefndin og Dómarafélag Íslands gagnrýndu skipanina harkalega.

Stöð 2 sagði frá svörum Árna við spurningum umboðsmanns í fréttum í gær. Kjarninn í þeim er að hann telur dómnefndina vanmeta starf Þorsteins sem aðstoðarmanns dómsmálaráðherra. Hann tekur til þess að þrír umsækjendur hafi útskrifast um svipað leyti og allir verið aðstoðarmenn dómara í upphafi starfsferilsins.

Síðan fari einn í framhaldsnám og seinna í kennslu, annar haldi áfram sem aðstoðarmaður dómara en sá þriðji, Þorsteinn, verði aðstoðarmaður dómsmálaráðherra. Árni telur mikið misræmi í því að tveir hinir fyrrnefndu séu taldir mjög vel hæfir en Þorsteinn aðeins hæfur.

Pétur Dam Leifsson sagði við fréttastofu að sér þætti álit Árna lýsa heldur sérkennilegri afstöðu ráðherrans til menntunnar, rannsókna og háskólakennslu á sviði lögfræði og þá einkum alþjóðalaga nú á 21. öld - svo ekki væri meira sagt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×